Hið daglega umhverfi

Laugardaginn 21. september, 2002 – Menningarblað/Lesbók

Hið daglega umhverfi

Í LISTASAFNI ASÍ sýna um þessar mundir Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir og Kristveig Halldórsdóttir. Um er að ræða tvær ólíkar sýningar sem kallast þó á hvað umfjöllunarefni varðar, að sögn Guðrúnar Hrannar. „Þessar sýningar eiga ágætlega saman, þær tengjast óbeint í gegnum einhvern hversdaglegan veruleika sem vísað er til.“Guðrún sýnir ljósmyndir og skúlptúr í Ásmundarsal og segir hún viðfangsefni sitt vera þá hluti sem er að finna í daglegu umhverfi fólks. Ljósmyndirnar sýna ljós og lampa frá óvenjulegum sjónarhornum svo úr verður afstrakt mynd. Stór skúpltúr fyllir hins vegar austurenda salarins, hann er unninn úr MDF, gleri og líni og er nokkurs konar útlegging af dæmigerðu stofustássi, sjónvarpsskáp með öllu tilheyrandi. Skápurinn er hins vegar lokaður í báða enda og stendur auður og ónýttur. „Skúlptúrinn líkist einhverju húsgagni þó svo að það sé ekkert notagildi í honum. Ég hef unnið mikið út frá því sem er inni á heimilinu og birti það umhverfi örlítið skekktri mynd. Ég er þó á leiðinni út úr þeirri nálgun, og má segja að skúlptúrinn á sýningunni sé lokapunkturinn í því ferli. Ég hef unnið nokkuð með þessa hversdagshluti sem hafa ekkert notagildi og hafa þeir verið að einfaldast meir og meir. Núna vinn ég verk sem falla inn í umhverfið, og fjalla því um umhverfið á annan hátt.“

Í Gryfju er Kristveig Halldórsdóttir með sýninguna Rehum Papyrus. Þar notar hún rabarbara á nýstárlegan hátt, hann er þurrkaður og úr honum gerður grænmetispapýrus, eða litfögur pappírsverk. Á sýningunni er m.a. fimm mynda sería, er nefnist „Súr viðbrögð“. Þar stefnir Kristveig saman pappírsverkunum og ljósmyndum af börnum, sem eru að bíta í væna rabarbarastöngla. Verkin höfða því í senn til sjónarinnar, með fögrum litbrigðum þurrkaða rabarbarans, og til bragðskynsins og ekki síst minningar áhorfandans um hið súra bragð plöntunnar. „Með því að tengja saman pappírsverkin og myndirnar af börnum vísa ég kannski til þeirrar nostalgíu sem tengist þessari jurt. Það eiga allir einhverjar æskuminningar um rabarbara, ekki síst bragðinu af honum. Börnin sýna líka hin „súru viðbrögð“ við bragðinu á svo einlægan hátt, tjáningin á bragðinu skín út úr andliti þeirra. Það er nokkuð sem maður sér ekki hjá fullorðnum.“

Aðferðin sem Kristveig notar til að vinna pappír úr rabarbaranum er ævaforn og er sú sama og notuð var í árdaga til að búa til papyrus. Það er þó ekki af tilviljun að Kristveig valdi rabarbarann sem efnivið á sýninguna, þó svo að hún hafi gert tilraunir með þá þurrkaðferð sem notuð er með öðrum grænmetis- og ávaxtategundum. „Ég hef verið að gera tilraunir með þessa aðferð með blaðlauk, jöklasalat, kíví, gulrætur og sveppi. Ég valdi rabarbarann vegna þess að í kringum hann fann ég ákveðinn hugmyndalegan ramma sem tengist okkur íslenska veruleika alveg sérstaklega. Rabarbarinn er jurt sem vex hér og er notaður mikið í alls kyns matargerð. En um leið er hann dálítið á mörkunum hvað skilgreiningu varðar. Hann telst til grænmetis, en er notaður sem ávöxtur, og bragðið er í senn sætt og súrt. Þessi planta er langt frá því að vera álitin falleg, en þegar unnið er með hana á þennan hátt kemur fegurð hennar í ljós. En verkin á sýningunni eru einnig á mörkum listforma, þar nota ég verk sem byggjast á handverki og set þau inn í samhengi nútímamyndlistar. Ég vinn mikið á landamærunum milli handverks og lista,“ segir Kristveig. Sýningunum lýkur á morgun. Safnið er opið milli kl. 14 og 18.

Comments are closed.