Um mig

Ég heiti Kristveig Halldórsdóttir, myndlistarkona og kennari í Reykjavík. Fædd árið 1964.

Ég lauk námi í textíllist frá Myndlista– og handíðaskólanum í Reykjavík árið 1993 og mastersprófi frá Lista- og handverksiðnaðarskólanum (SHKS) í Osló árið 1998 þar sem ég sérhæfði mig í textílmyndlist og þá sérstaklega í notkun handgerðs pappírs og mismunandi plöntutrefja sem ég notaði í minni myndlist fyrst eftir að ég flutti heim.

Myndlist mín hefur síðan þá smám saman þróast í aðra miðla og aðferðir, einkum ljósmyndun og tölvugrafík, oftast þó í einhverjum tengslum við textíl. Nýjustu verk mín eru innsetningar byggðar á skrásetningu á fortíðinni sem ég vinn með og set í nýtt samhengi með hjálp ýmissa nýmiðla.

Hafðu samband!

Nafn

Netfang

Efni

Skilaboð


Gullkistan miðstöð sköpunar
Fyrirtækið Gullkistan miðstöð sköpunar ehf. er í eigu Kristveigar Halldórsdóttur og Öldu Sigurðardóttur.

Árin 1995 og 2005 stóðum við að listahátíð á Laugarvatni undir sama heiti. Einn megintilgangur hátíðarinnar var að vekja athygli á ástandi gamla Héraðsskólahússins og hvetja til þess að því yrði fundið verðugt hlutverk. Þátttakendur voru rúmlega eitthundrað og þúsundir gesta sóttu fjölbreytta viðburði hátíðanna.

Á Gullkistunni 2005 stóðum við jafnframt að málþingi um framtíðarnýtingu Héraðsskólahússins sem listamiðstöðvar. Hugmyndinni var vel tekið þó að önnur áform um nýtingu húsnæðisins yrðu ofan á.

Engu að síður hófum við rekstur í anda þeirra hugmynda sem ræddar voru á málþinginu. Við tókum á leigu íbúðir í eigu Byggingarfélags námsmanna og bóndabæinn Eyvindartungu þar sem við stofnuðum dvalarstað fyrir listamenn og starfsemin er nú. Fyrstu gestirnir komu þann 1. júní 2009 og í lok árs 2012 höfðu 100 gestir frá 15 löndum dvalið á vegum Gullkistunnar mánuð í senn eða meira.

Í lok árs 2013 keypti Gullkistan nýtt húsnæði á Laugarvatni sem við nefndum Miðstöðina, áður Tjaldmiðstöðin og starfsmannahús sem við nefndum Kistuna. Í miðstöðinni er nú vinnustofa fyrir þá listamenn sem dvelja í Kistunni, sýningarsalur, kennslustofa, fyrirlestrarsalur og stór eldhús. Húsið mun nýtast fyrir ýmiskonar uppákomur, sýningar og námskeið.

www.gullkistan.is

Comments are closed.