Úr vinnustofum þriggja listamanna

Morgunblaðið
Föstudaginn 13. ágúst, 1999 – Myndlist

Úr vinnustofum þriggja listamanna

Nýlistasafnið

TAKMARKANIR EFNIVIÐARINS LIGGJA HJÁ LISTAMANNINUM
Raunsæ landslagsmálverk, teikningar og collage- myndir ásamt þrívíðum hörverkum eru það sem Nýlistasafnið býður upp á sýningunum sem þar verða opnaðar í dag. Listamennirnir þrír sem nú sýna í safninu eru allir af ólíkum toga og bera verk þeirra þess glögg merki. Írinn Oliver Comerford sýnir raunsæ landslagsmálverk á sýningu sem nefnist „Talk to me“, Kristveig Halldórsdóttir fer Eitt skref í viðbót …, með tví- og þrívíðum hörverkum og Áslaug Thorlacius finnur efnivið í vinnuaðstöðu sinni á sýningunni Úr vinnustofu listamanns þar sem hún íhugar húsmóðurhlutverkið.
MYNDATEXTI: ÞRÍVÍÐ hörverk Kristveigar Halldórsdóttur vinna vel með ljósi og skugga.

 

PAPPÍR Í SIGTINU

KRISTVEIG HALLDÓRSDÓTTIR

Í Bjarta og Svarta sal er sýning sem er allt annars eðlis en þær sem eru á hæðunum fyrir ofan og neðan. Bakgrunnur Kristveigar Halldórsdóttur er í handverki og hönnun og hún hefur numið við textíldeild MHÍ og þar til nýlega við listiðnaðarháskólann í Ósló. Sýningin verður þó að teljast á mörkum textíllistar og skúlptúrlistar.

Verkin eru gerð úr hörtrefjum og bývaxi. Hör er notað bæði í tau og í pappír, en í þessu tilviki er efnið ekki ofið, heldur er bývaxið notað til að binda hörinn og mynda þunnar arkir, alsettar reglulegum götum. Arkirnar eru mjög léttar að sjá, gegnsæjar og brothættar, eins og gatasigti. Samt líkist efnið ekki pappír, því vaxið gerir að verkum að það verður eins og lífræn himna, sem er uppþornuð og storknuð.

Kosturinn við sýninguna er ótvírætt hin óvenjuleg meðferð á efninu. Þau form og þær útfærslur, sem hún kýs að vinna með, eru hins vegar ekki eins spennandi. Manni finnst stundum brenna við að listamenn, sem eru mjög uppteknir af efni og áferð, lendi í frekar klisjukenndum formstúdíum, sem skilja lítið eftir sig. En ég hef í sjálfu sér litlar áhyggjur af því hvað Kristveigu varðar, því það á eftir að reyna á það hvernig hún kemur til með að vinna úr hlutunum. Aftur á móti tekst henni á skemmtilegan hátt að notfæra sér andstæðurnar milli birtu Bjarta salarins og myrkurs Svarta salarins, með því að spila á andstæður í formi og uppsetningu verkanna.

Gunnar J. Árnason

Comments are closed.