Hring eftir hring, 2009

Hring eftir hring gengur sagan, handverkið og hugsun mannsins sem vart verður sundurgreint; að venda og víxla fortíð og nútíð er aðferðin við að bæta og þróa til framtíðar sem fyrr en varir er orðin fortíð.

Það er vel til fundið hjá Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi að bjóða reglulega textíllistamönnuðum og fatahönnuðum samtímans að ganga til fundar við handverk fyrri tíma í húsinu á bökkum Blöndu.

Nú hefur gesti borið að garði til að vitna enn á ný um stefnumót nýs og gamals, hagnýts og þénlegs sem jafnframt eflir tilfinningu okkar fyrir fegurð og nýjum afstæðum lita, forma og aðferða. Þær eru þrjár, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Kristveig Halldórsdóttir og Rósa Helgadóttir. Minna má það ekki vera til að takast á við arfleifðina sem Halldóra Bjarnadóttir barnakennari, stofnandi og skólastjóri Tóvinnuskólans við Eyjafjörð með meiru mat svo mikils.

Textíllinn er víðfeðm listgrein sem tekur til margvíslegra efna og aðferða, ullar og prjóns, vaðmáls og saumaskapar, vefnaðar, þrykks, litunar, málunar, grafíkur jafnvel prents og ljósmyndunar. Þar koma við sögu margvísleg efni sem ekki verða í metrum talin, tækni saumnálarinnar er beitt jafnt sem tölvunnar og aðferðirnar ná frá aftursting til flatarmálsfræði. Við landnám gamalla aðferða og efniviðar í nýju verður alltaf til eitthvað sem kemur á óvart. Hvernig eigum við annars að geta skimað lengra og séð víðar um? Það þarf stöðugt nýjar samsetningar, nýtt „upphaf“ á hringinn, nýjar framsetningar, til að segja eitthvað um það líf sem við lifum rétt eins og safnkosturinn í Heimilisiðnaðarsafninu segir svo margt um það líf sem áður var lifað.

Jórunn Sigurðardóttir

KRISTVEIG HALLDÓRSDÓTTIR

Í raun er bróderí þrívítt verk, skúlptúr, heill í gegn, með fágaða forhlið á réttunni og blóð, svita og tár frágangsins á röngunni: valið og vandað annars vegar og það sem ekki verður hjá komist hins vegar. Á röngunni er að finna upphaf og enda hágöngunnar, hins áþreifanlega mynsturs á réttunni. Kristveig býður hér að gægjast aftur til fortíðar um tuttugu og sjö hringlaga göt, sem minna á saumahringinn, mikilvægasta hjálpartæki útsaumsins. Inni í hringjunum læðast þræðir munstursins út úr þoku fortíðar yfir í skerpu nútímans sem viðurkennir ekki réttu og röngu, prísar gagnsæið, vegsummerkin og skráningu alls í beinum línum. Kristveig stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1989-93 og síðan við Hönnunar- og handverksháskólann í Osló þar sem hún nam textíl og myndlist. Á síðustu árum hefur þó ljósmyndavélin og tölvutæknin verið mikilvægasta tæki Kristveigar við listsköpun. Með þessum tækjum les hún efnivið sinn í tvíræðri merkingu orðsins, tínir upp og les sem texta og býr til myndir til opinnar túlkunar.

Jórunn Sigurðardóttir

Comments are closed.