Rabarbari og hugmyndalist

MYNDLIST – Listasafn ASÍ við Freyjugötu

 

Rabarbari og hugmyndalist

BLÖNDUÐ TÆKNI,
KRISTVEIG HALLDÓRSDÓTTIR, GUÐRÚN HRÖNN RAGNARSDÓTTIR

Í LISTASAFNI ASÍ við Freyjugötu eru nú tvær afar ólíkar sýningar, svo ólíkar að undrun sætir. Eins og fram kom í umsögn um sýningar í Listasafni ASÍ fyrir nokkrum vikum hefur safnið nú tök á því að hætta að krefja sýnendur um greiðslu fyrir sýningaraðstöðu. Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða áhrif þetta hefur á sýningarstefnu safnsins í framtíðinni.

Í Gryfju sýnir Kristveig Halldórsdóttir handunnin verk úr rabarbara sem hún kallar Rehum papyrus. Rabarbarinn er þurrkaður og síðan límdur á glerplötur svo úr verður áferðarfallegt og litfagurt efni sem minnir á papyrus. Samhliða þessu sýnir Kristveig ljósmyndir af áhrifunum sem bragðið af hráum rabarbara hefur á andlitssvip barna og unglinga. Bæði rabarbara-pappírinn og myndirnar eru falleg verk og vel unnin og lítil sýningarskrá einnig. Einnig er ágætt að fá að sjá í möppum hvernig Kristveig hefur farið höndum um annað grænmeti eins og rauðlauk, jökulkál og kíví. Kristveig er menntuð í Noregi og skrifaði þar lokaritgerð sína um handgerðan pappír sem sjálfstætt tjáningarform. Ýmsir listamenn hafa unnið með handgerðan pappír á þeim forsendum, til dæmis Svava Björnsdóttir. Að verkum Kristveigar alls ólöstuðum standa þau þó nær listrænni hönnun en nútímalist, einfaldleiki verka og hugmyndar gera það að verkum að verkin hefðu kannski notið sín betur í slíku samhengi, til dæmis á samsýningu fleiri hönnuða.

Í arinstofu á jarðhæð sýnir Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir skúlptúr úr hvítmáluðu MDF, gleri og gardínuefni. Á efri hæð eru fjórar ljósmyndir og skúlptúr í formi sýningarskáps, úr hvítmáluðu MDF og gleri. Á allt að tuttugu ára ferli hafa verk Guðrúnar Hrannar tekið ýmsum breytingum, á tímabili var hún til dæmis upptekin af kitch, hvað lægi að baki þeirri hugsun og hvernig slíkir hlutir yrðu til, – kannski eimir enn eftir af þeim verkum í mynstruðu gardínuefninu í skúlptúrnum í arinstofunni. Hún hefur í gegnum árin stöðugt velt fyrir sér eðli og eiginleikum höggmynda og jafnframt listarinnar í heild. Með því að vinna verk sem líktust húsgögnum en höfðu ekki notagildi spurði hún spurninga um grundvallareinkenni höggmynda og sérkenni listaverka. Nú setur Guðrún verk sín í örlítið annað samhengi með því að nota form sýningarskápa.

Fleiri listamenn hafa unnið með svipaðar hugmyndir á síðustu áratugum. Verk Guðrúnar í ASÍ í formi sýningarskáps minnir til dæmis á verk þýska listamannsins Reinhard Mucha þar sem hann tekur sýningarskápa og stöpla í eigu safna og sýnir þá eins og um höggmyndir væri að ræða. Í verki hans eins og í verki Guðrúnar speglast áhorfandinn einnig greinilega í gleri skápsins eins og til að gefa til kynna að það sé návist áhorfandans og væntingar hans sem skapi verkið. Belgíski listamaðurinn Didier Vermeiren kemur einnig upp í hugann, til dæmis verk hans Sculpture frá 1982 þar sem hann býr til tvo eins stöpla úr marmara og setur annan upp á hinn – varpar þannig fókusnum meira á það hvernig er sýnt heldur en hvað er sýnt. Allan MacCollum er líka á svipuðum nótum í verki sínu Plastic Surrogates frá 1989 þar sem 288 gifshlutir eru sýndir í líki málverka. Hér virðist sú hugmynd liggja að baki að umgjörð listarinnar hafi fengið yfirhöndina og lögð er áhersla á það með tilbúinni fjarveru listaverksins sjálfs, tómum skápum, stöplum sem koma í staðhöggmyndar, eftirlíkingu málverka. Verk Stephen Prina koma einnig upp í hugann, hann er líka einn þeirra sem gert hafa framsetningu verka að inntaki þeirra og velt fyrir sér starfsemi listasafna.

Ég fæ ekki betur séð en að á þessari sýningu sé Guðrún í svipuðum hugleiðingum.

Ásamt MDF-verkinu á efri hæð, nákvæmri eftirlíkingu sýningarskáps, sýnir hún fjórar ljósmyndir af loftljósum. Myndirnar eru teknar nokkurn veginn beint neðan frá og ljósin verða þannig að hringlaga dálítið lífrænum formum. Ég er ekki viss um hvernig á að túlka þessar myndir, en eins og skápurinn sem ekkert sýnir sjást hér ljós sem ekki varpa birtu á neitt. Hvort þessi tenging er sú sem Guðrún ætlaði sér veit ég ekki, en ljósmyndirnar eru skemmtilega lífrænar í þessu frekar þurra samhengi.

Verk Guðrúnar eru innlegg í umræðuna um eðli listaverka og þá staðreynd að umgjörð listaverka er óaðskiljanlegur hluti af þeim, í samræmi við þá kenningu að skilaboðin felist í miðlinum sjálfum en ekki því sem hann segir. Guðrún tekur hér umgjörðina og hlutgerir hana, gerir hana að listaverkinu sjálfu. Þó að þessi hugmynd sé kannski ekki ný af nálinni hafa ekki margir íslenskir listamenn fengist beinlínis við þetta efni í verkum sínum, að minnsta kosti ekki markvisst árum saman. Þessa umræðu mætti að ósekju opna áður en hún deyr út í naflaskoðun og samfélagsádeilu sem nú virðast efst á baugi.

Hver einstök sýning listamanns er aðeins brot af æviverki hans. Í tilfelli Guðrúnar er allur ferill hennar ein meira og minna samhangandi heild og verk hennar þróast hvert á eftir öðru í einhvers konar samhengi. Kannski fengi hver sýning aukið vægi ef hægt væri að skoða hana í samhengi við það sem á undan er gengið til dæmis með því að hafa ljósmyndamöppu á staðnum. Það myndi líka hjálpa áhorfendum að átta sig ef verkin á sýningunni væru á einhvern hátt auðkennd. Ég get skilið að Guðrúnu finnist að þessi verk eigi að tala sjálf en vildi óska þess að hún hefði fylgt þeim eftir með einhverjum orðum, hvort sem þau orð hefðu fjallað beinlínis um verkin sjálf eða eitthvað annað sem gæti óbeint varpað ljósi á þau. Það eru jú ekki óræðar, orðlausar tilfinningar sem liggja að baki þessum verkum heldur ákveðinn hugmyndaheimur. Hann er áhugaverður og leitt ef verkin hafa ekki tilætluð áhrif vegna þess að hann stendur ekki opinn.

Ragna Sigurðardóttir

Comments are closed.