Category X

Laugardaginn 29. maí, 2004 – Menningarblað/Lesbók

Handverk og hönnun eftir Þórodd Bjarnason

En það er ekki bara í Hönnunarsafni Íslands sem grátt svæði er kannað. Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði eru mörkin á milli myndlistar, hönnunar og handverks skoðuð á bráðskemmtilegri 10 ára afmælissýningu Handverks og hönnunar, en Handverk og hönnun er verkefni sem sett var á stofn til að efla handverks- og listiðnað. Handverk og hönnun er eins konar samstarfsvettvangur þar sem koma saman bæði menntaðir hönnuðir sem og handverksfólk víða af landinu. Fjögur ráðuneyti koma að verkefninu.

Hér er á ferðinni talsverð leikgleði og andríki í bland við hreina hönnun, frjálslega hönnun, ef svo má segja, þar sem minni áhersla er á notagildið, og hreina myndlist. Ákveðið hefur verið að fara þá leið að búa til tvær sýningar og samtalið þeirra á milli er það sem er einna mest spennandi við það sem fram fer í safninu.

Annars vegar hafa þrír aðilar, þeir Aðalsteinn Ingólfsson, Eyjólfur Pálsson og Guðný Magnúsdóttir, valið listamenn saman á hefðbundna afmælissýningu. Efniviður þeirra við valið var allt það sem gert hefur verið á þessum vettvangi sl. 10 ár. Hins vegar er það sýningin Category X. Þar eru listamenn sem eru með á afmælissýningunni í bland við aðra meðlimi Handverks og hönnunar sem ekki hlutu náð fyrir augum sýningarstjóra afmælissýningarinnar. Sýnendur á Category X fengu alveg frjálsar hendur og gáfu hugmyndafluginu lausan tauminn. Sú sýning ber því með sér þann frjálslega andblæ sem oft einkennir útskriftarsýningar listaháskóla, þar sem menn eru ófeimnari en þeir lengra komnu við að láta vaða á eitthvað skemmtilegt.

Af skemmtilegum verkum á Category X er verkið sem tekur á móti manni þegar maður kemur inn í safnið, Súr viðbrögð, þar sem myndaðar eru grettur barna sem eru að borða súran rabarbara. Listamaðurinn, Kristveig Halldórsdóttir, býr einnig til „textílefni“ úr rabarbaranum og fleira grænmeti! Þá má nefna látlausa og nokkuð aðlaðandi hringi gerða úr leirplöttum, festum á mismunandi skærlitaða hringi úr tré, eftir Kristínu S. Garðarsdóttur. Skartgripir úr sápu eftir Kjartan Örn Kjartansson eru einnig skemmtilegir, sem og súkkulaðitaska og taska skreytt blómamynstri úr pillum eftir Bjargeyju Ingólfsdóttur. Þarna inni er líka daðrað við hina hreinu myndlist, eins og í hljóðverki Ástþórs Helgasonar gullsmiðs þar sem málmþynna snýst í hringi og slæst í vegginn.

Í hönnunarhlutanum er einnig margt góðra gripa. Fyrst ber að nefna skóhönnun Maríu K. Magnúsdóttur sem fær sérstakan bás á sýningunni undir frumgerðir af vörum sínum. Þetta eru skór úr selskinni og roði, efni sem virðist vera notað í sífellt ríkari mæli af íslenskum hönnuðum. Undirrituðum finnst þessi ákveðnu efni reyndar frekar óspennandi, en þarna er metnaðarfullur hönnuður á ferðinni

Það sem er eftirminnilegast af afmælissýningunni er skartgripahönnun Kjartans Arnar Kjartanssonar, Ástþórs Helgasonar, Guðbjargar Kr. Ingvarsdóttur og Huldu B. Ágústsdóttur. Allt mjög fallegir hlutir. Dead hönnun Jóns Sæmundar er einföld, sterk og stílhrein og brýtur upp heildina. Þá eru fígúrur Helga Björnssonar í Huppuhlíð á Hvammstanga listilega útskornar og gætu sómt sér vel á hvaða sýningu sem er, jafnvel á myndlistarsýningu! Þá eru hlutir Jóhönnu Svölu Rafnsdóttur keyrðir áfram af skemmtilegri grunnhugmynd og fyrrnefnd verk Kristveigar í anddyrinu eru einnig eftirminnileg.

Comments are closed.